Á. Óskarsson & Co. ehf. | Þverholti 8 | 270 Mosfellsbæ | S. 566-6600 | oskarsson@oskarsson.is
Forsíða / Viðskiptaskilmálar

Viðskiptaskilmálar

Gildissvið

Skilmálar þessir gilda um viðskipti milli Á. Óskarssonar ehf. og viðskiptamanns.
Með viðskiptamanni er átt við hvers kyns lögaðila, einstakling, fyrirtæki eða stofnun sem er kaupandi af vörum og/eða þjónustu af Á. Óskarssyni ehf.

Á. Óskarsson ehf. – kt. 460178-0299, er með aðsetur að Þverholti 8 – 270 Mosfellsbæ.
Skilmálar þessir tóku gildi í núverandi mynd þann 13. febrúar 2009.

Skilmálarnir gilda um öll viðskipti, hvort sem um vöruviðskipti eða þjónustuviðskipti er að ræða. Skilmálarnir gilda jafnt fyrir reikningsviðskipti sem og fyrir staðgreiðsluviðskipti. Þegar um neytendakaup er að ræða gilda ákvæði neytendakaupalaga nr. 48/2003 en um kaup annara aðila gilda ákvæði lausafjárkaupalaga nr. 50/2000.

 

Ábyrgðir & gallar

Frestur til að bera fyrir sig galla á vörum er 2 ár þegar um neytendakaup er að ræða en 6 mánuðir þegar um lausafjárkaup er að ræða. Frestur til að bera fyrir sig galla tekur ekki mið af þeim tíma sem vara er í ábyrgð. Ábyrgð á vörum miðast við þann tíma sem framleiðandi ábyrgist sem og lögbundna ábyrgð eigi hún við. Takmarkanir á ábyrgð miðast sömuleiðis við þær takmarkanir sem framleiðandi setur. Ábyrgð nær ekki til vinnu eða aukakostnaðar, t.d. ferðatíma, aksturs- og uppihaldskostnaðar ef viðgerð fer fram utan aðseturs Á. Óskarssonar ehf. og/eða viðurkenndra verkstæða. Þá nær ábyrgð ekki yfir skemmda eða bilana á tækjum sem rekja má til óeðlilegrar notkunar, lélegrar geymslu, lítils viðhalds eða slæmrar umgengni. Ábyrgð fellur úr gildi ef breytingar eða viðgerðir hafa verið gerðar af öðrum en viðurkenndum þjónustuaðilum og án samþykkis Á. Óskarssonar ehf.

 

Skilafrestur

Skilafrestur á vöru í söluhæfu ástandi er 10 dagar frá móttöku og aðeins gegn framvísun reiknings eða fylgiseðils. Skilafrestur á ekki við þegar um er að ræða sérpöntun viðskiptamanns.

 

Sérpantanir

Með sérpöntunum er átt við vörur sem ekki eru til á lager þegar viðskiptamaður óskar eftir þeim og eru þær því fluttar sérstaklega til landsins eftir að viðskiptamaður hefur samþykkt tilboð eða lagt fram pöntun. Sérpantanir geta farið fram skriflega eða munnlega, gegnum síma, tölvupóst eða eftir öðrum leiðum. Ekki er hægt að skila vöru sem hefur verið sérpöntuð fyrir viðskiptamann. Á. Óskarsson ehf. ábyrgist ekki afhendingartíma á vörum sem hafa verið sérpantaðar og miðast uppgefinn afhendingartími ávallt við mat og fyrri reynslu af sérpöntunum til viðeigandi framleiðanda/birgja. Viðskiptamaður getur Því ekki rift kaupum á grundvelli of langs afhendingartíma. Þegar um sérpantanir er að ræða getur endanlegt verð vöru verið hærra heldur en það verð sem gefið var upp þegar pöntun átti sér stað. Endanlegt verð vöru er þá miðað við gengi á ISK á þeim tíma sem varan kemur til landsins eða þegar greiðsla hefur borist til erlends framleiðanda/birgja. Viðskiptamaður á þess kost að gengistryggja sig að hluta eða öllu leyti með fyrirframgreiðslu náist um það samkomulag milli viðskiptamanns og Á. Óskarssonar ehf.

 

Auglýstar vörur & verðlagning þeirra

Á. Óskarsson ehf. ábyrgist ekki að vörur sem birtar eru á vefsíðu, í bæklingum, fréttabréfum eða á öðrum vettvangi séu ávallt til á lager eða rétt fram settar. Sé vara ekki til á lager flokkast pöntun viðskiptamanns sem sérpöntun. Gerður er fyrirvari við möguleg myndabrengsl, ranga vörulýsingu og ranga verðlagningu. Á. Óskarsson ehf. áskilur sér rétt til þess að leiðrétta ranga framsetningu á vörum og þjónustu og innheimta í samræmi við rétta vöru og verð eða að öðrum kosti að falla frá viðskiptunum.

 

Reikningsviðskipti & innheimta

Þegar um reikningsviðskipti er að ræða skuldbindur viðskiptamaður sig til þess að greiða kostnað af innheimtu, greiðslugjald vegna útgáfu greiðsluseðils sem og annan mögulegan innheimtukostnað í samræmi við gjaldskrá viðskiptabanka og innheimtustofnana. Greiðsluseðlar eru sendir út vikulega og er greiðslufrestur að jafnaði 15 dagar frá útgáfudegi þeirra. Hafi krafa ekki verið greidd á eindaga er send út lögbundin viðvörun og fer hún síðan sjálfkrafa í milliinnheimtu hjá innheimtufyrirtækinu Momentum ehf. Fáist krafa ekki greidd í milliinnheimtu fer hún í löginnheimtu hjá Gjaldheimtunni ehf. Sjálfskuldarábyrgð gildir um viðskiptin ef sá einstaklingur sem kemur að kaupunum er í forsvari fyrir fyrirtæki eða félag sem tengist honum gegnum eignarhald, fjölskyldu- eða vinatengls.

 

Afhending & eignarhald á vörum

Vörur eru að jafnaði sendar með Íslandspósti hf. frá vöruhúsi Á. Óskarssonar ehf. í Mosfellsbæ. Flutningskostnaður bætist við pöntunina og innheimtir Íslandspóstur hf. flutningskostnaðinn við afhendingu skv. eigin verðskrá. Viðskiptamaður getur einnig óskað þess að fá að greiða flutningskostnaðinn fyrirfram á sama tíma og greitt er fyrir vörurnar. Einnig getur viðskiptamaður óskað þess að sækja vörurnar í vöruhús okkar í Mosfellsbæ og sleppur þá við flutningskostnað. Ekki er hægt að ábyrgjast fyrirfram að allar vörur í vefverslun séu til á lager. Pantanir í vefverslun eru yfirfarnar og lagerstaða á vörum sannreynd. Ef að varan/vörurnar eru ekki til á lager þá munum við áætla afhendingartíma og biðja um að staðfestingu á pöntuninni aftur. Allar vörur eru eign Á. Óskarssonar ehf. þar til þær eru að fullu greiddar sbr. lög um samningsveð nr. 75/1997. Viðskiptamanni er því óheimilt að veðsetja vörurnar eða selja þar til þær eru að fullu greiddar.